Rætt um jafnrétti kynjanna á þjóðhátíðardaginn

Steinunn Stefánsdóttir á HrafnseyriSteinunn Stefánsdóttir varaformaður Kvenréttindafélags Íslands hélt hátíðarræðu á Hrafnseyri, fæðingarbæ Jóns Sigurðssonar, 17. júní 2015.

 

 

 

Komið þið sæl og gleðilega hátíð!

Í greininni “Endurminningar um Jón Sigurðsson IV“ eftir Indriða Einarsson sem birtist í tímaritinu Skírni árið 1911 er að finna eftirfarandi frásögn af kvöldstund sem Indriði átti með þeim hjónum, Jóni Sigurðssyni og Ingibjörgu Einarsdóttur:

[quote]Eitt sunnudagskvöld var eg úti hjá þeim hjónum og hafði lesið nýlega rit Stuarts Mills um kúgun kvenna. Eg fór að tala um skoðanir Stuart Mills á málinu, og áleit þær óhrekjandi. Forseti var á líkri skoðun og flestir stjórnmálamenn voru þá, og var heldur á móti kvenréttindum. Frú Ingibjörg sat í hægindastólnum sínum og var búin að breiða yfir búrið, sem páfagaukurinn hennar var í, og kom til liðs við mig. Allir vita að pólitík er ekki aðeins ástæður fyrir málinu heldur einnig lunderni til að halda því til streitu. Frúin lagði til lundernið, en eg hefi líklega komið með eitthvað af ástæðunum. Þegar hún var búin að segja eitthvað af því helzta, sem henni fanst þurfa að segja, þá hélt Forseti – sem aldrei vildi víkja – undan og sagði: „Það er ómögulegt að dispútera við yður þegar þér hafið fengið konuna mína með yður.“[/quote]

Þarna er dregin upp skemmtileg og einnig áhugaverð mynd af manni dagsins, þjóðhetjunni Jóni Sigurðssyni, sem var auðvitað bara mannlegur eins og við hin, og að einhverju leyti íhaldssamur þó að hann hafi að flestu leyti verið afar framsýnn.

Og þó að það þjóni vitanlega litlum tilgangi að velta því fyrir sér hver sýn Jóns Sigurðssonar væri á jafnrétti kynjanna, væri hann samtíðarmaður okkar, þá verð ég að segja að ég hef trú á því að frelsishetjan Jón væri einlægur fylgismaður kvenréttinda væri hann meðal okkar í dag, kannski ekki beinlínis virkur í hreyfingu femínista en traustur stuðningsmaður.

Ég er líka sannfærð um að hann hefði stutt kosningarétt kvenna af heilum hug hefði hann verið uppi 1915. En hann var ekki þar og enn síður er hann hér, og nú. En það erum við. Og það er okkar að vera framsýn, eins og Jón forseti var, og það er okkar að móta og taka þátt í að bæta samfélagið og tryggja að frelsinu og mannréttindunum sem Jón forseti stóð fyrir á sinni tíð og á sínum forsendum, sé ekki misskipt milli þegnanna.

Á þessu ári fögnum við því að konur hafa haft kosningarétt og kjörgengi í 100 ár – og að 95 ár eru liðin síðan konur fengu kosningarétt án aldursskilyrða, þ.e. að kosningaréttur þeirra varð sambærilegur rétti karla. Og það er þess vegna sem mér hefur verið sýndur sá sómi að standa hér á þessum stað í dag.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þessari öld sem liðin er síðan konur voru teknar í samfélag þeirra sem mega kjósa stjórnvöld landsins. Og við sem höfum helgað jafnréttisbaráttu kynja nokkuð af tíma okkar og orku, gleðjumst yfir þeim áföngum. Um leið getum við þó ekki annað gert en að benda stöðugt á hversu langt í land, nú þegar 95 ár eru liðin frá því að réttur kvenna og karla til stjórnamálaáhrifa varð sambærilegur.

Og það er langt í land. Ég ætla að fullyrða það hér og nú og mig langar að segja ykkur hvers vegna.

Það má vissulega halda því fram að jafnrétti sé í raun náð í einhverjum skilningi því formlega séð ættu öll skilyrði fyrir jafnrétti að vera til staðar, stjórnarskráin og lögin í landinu miðast öll við að hér ríki jafnrétti milli kynja, og meira en það, til eru lög í landinu sem beinlínis eiga að stuðla að því að auka hlut kvenna með það að markmiði að hlutur kynja verði jafnari en hann er, lög um hlut kynja í stjórnum fyrirtækja eru dæmi um þetta.

Þar með er samt ekki sagt að lagasetningum fyrir kynjajafnrétti sé lokið því það þannig að eftir því sem tímanum vindur fram þá komum við alltaf auga á ný svið sem nauðsynlegt er að lög taki yfir. Hér má nefna að nú mun reynast nauðsynlegt að hafa ákvæði í lögum um að refsivert sé að birta nektarmyndir af öðrum á netinu án samþykkis. Og hvern hefði grunað fyrir 100 árum þegar íslenskar konur fengu kosningarétt að mannfólkinu dytti einhvern tíma í hug að hægt væri að láta konu ganga með barn fyrir sig, gegn greiðslu eða af greiðasemi einni saman, og lagasetningu þyrfti til þess að setja þeim gjörningi ramma eða banna hann, sem mér þykir vissulega til muna betri kostur án þess að ég ætli að fara nánar út í það hér.

En hverju er þá ábótavant? Hvers vegna stend ég hér og held því fram að jafnrétti kynja sé ekki náð í raun þótt stjórnarskrá okkar og lagaumgjörð gangi útfrá því að jafnrétti eigi að ríkja milli kynja.

Ég ætla að nefna nokkur dæmi. Launamunur kynja er viðvarandi og óþolandi. Valdahlutföll milli kynjanna endurspegla ekki hlutföll milli kynja í samfélaginu, hvorki í stjórnsýslunni né í fyrirtækjum. Og margvíslegt ofbeldi sem konur verða fyrir er í raun furðulegt í samfélagi sem telst vera siðað.

Ef við skoðum valdastöðuna aðeins nánar þá hefur til dæmis aðeins ein kona verið forseti, ein kona hefur verið forsætisráðherra og ein kona biskup. Vissulega hafa nokkrar konur verið ráðherrar og nokkrar gegnt embættum háskólarektora, og vígin eru enn að falla því ein þessara fyrrum rektora var í þessum mánuði skipuð ríkissáttasemjari fyrst kvenna á Íslandi. Samt sem áður blasir fæð kvenna í ábyrgðamestu stöðum samfélagsins við. Engin kona hefur verið bankastjóri Seðlabanka Íslands, hagstofustjóri, fiskistofustjóri, ríkisendurskoðandi, umboðsmaður Alþingis, og svo mætti lengi telja.

Og svo er ekki nóg að ein og ein kona nái að smokra sér fram hjá hefðunum og inn í valdastöðurnar. Margar konur sem þeim áfanga hafa náð hafa reynt að þar með þarf björninn aldeilis ekki að vera unninn, því svo virðist sem ósýnilegir þræðir liggi milli karla í valdastöðum. Það eru þessir þræðir sem stundum eru nefndir karlveldið eða feðraveldið. Ég hef stundum kallað þetta bekkjarbræðraveldið af því að mér finnst það að mörgu leyti færa hugtakið nær okkur og gera það skiljanlegra.

Ákvarðanirnar á toppunum eru nefnilega ekki alltaf teknar í samræmi við skipuritin og sérstaklega ekki þar sem konur hafa laumað sér inn í kassana. Ákvarðanirnar er hægt að taka í fótboltanum eða í laufléttu símtali milli karla sem hafa bundist böndum í gegnum sameiginlega íþróttaiðkun eða veiði eða hafa verið saman í bekk, samanber bekkjarbræðraveldið. Og þetta er allt svo óformlegt og þar með ósýnilegt og þess vegna er svo erfitt fyrir konur að glíma við þetta.

En það eru ekki bara konur sem vilja glíma við þetta. Flestir, já ég fullyrði það, flestir, vilja breyta þessu. Flestir hafa uppgötvað að fjölbreytileikinn bætir, og að þeim mun fleiri og fjölbreyttari sjónarhorn sem koma að hugmyndaborði eða ákvarðanatökuferli, þeim mun betri og gjöfulli er líklegt að niðurstaðan verði.

Eftir að réttur feðra til töku fæðingarorlofs varð svona rúmur hér á landi gera fleiri og fleiri karlar sér einnig grein fyrir gildi þess að mynda tengsl við ung börn sín, og taka á þeim raunverulega ábyrgð eftir að móðirin er horfin til starfa sinna á vinnumarkaðinum. Á þessum mánuðum myndast tengsl milli föður og barns sem ég hygg að fáir karlar sem reynt hafa vildu skipta á gegn einhverjum öðrum lífsgæðum.

Samt sem áður virðist vera alveg óendanlega erfitt að brjóta af sér ósýnilega hlekki vanans og þess vegna höfum við ekki náð lengra, og sá árangur sem þó hefur náðst hefur sannarlega unnist með hraða snigilsins.

Reiknispekúlantar og húmoristar hafa skemmt sér við að reikna út hversu margir áratugir eða aldir munu líða þangað til kynjajafnrétti verður náð ef mál þokast með sama hraða og nú. Niðurstaðan er jafnan ógnvekjandi og ég ætla hér og nú og án alls húmors að fullyrða að kynjajafnrétti verður aldrei náð ef við förum ekki að heyja annars konar baráttu en við höfum einblínt á hingað til. Mín skoðun er sú að meðan við erum alltaf og eingöngu að glíma við afleiðingar kynjamisréttis en ekki orsakir þess að þá gerum við aldrei betur en að halda í horfinu og sjá hlutina mjakast áfram, það er að segja, við munum aldrei ná fullu jafnrétti kynja ef ekki verður farið að vinna af fullum þunga í orsökum þess.

Og til að forðast allan misskilning þá ætla ég að taka fram áður en ég fer að telja upp dæmi um afleiðingaglímuna að ég er alls ekki að segja að við eigum að hætta fást við afleiðingarnar, þvert á móti þá verðum við að halda þeirri vinnu ótrauð áfram þar til við höfum náð verulegum árangri með orsakirnar.

Ég ætla að nefna hér örfá og afar ólík dæmi um leiðir sem við höfum byggt upp til að glíma við afleiðingar kynjamisréttis. Þetta eru til dæmis kvennaathvörf sem veita konum sem hafa orðið fyrir ofbeldi af hálfu maka húsaskjól, kynjakvótar í stjórnum fyrirtækja og á framboðslistum stjórnmálaflokka og jafnlaunavottun. Og mér finnst nauðsynlegt að ítreka að ég styð allt sem þessu við kemur af heilum hug.

En hvað á ég þá við þegar ég segi að við þurfum að vinna með orsakirnar? Ég á við að við verðum breyta samfélaginu, við verðum að bylta. Engir foreldrar vilja að dætur þeirra hafi minni möguleika og færri valkosti en synir þeirra. Við viljum ekki búa í samfélagi þar sem sá ótrúlegi hlutur gerist aftur og aftur, að lítill mjúkur og ilmandi hvítvoðungur taki einhverjum áratugum síðar upp á því að nauðga vinkonu sinni eða beita konu sína ofbeldi.

Og hvað getum við gert til þess að koma í veg fyrir þetta? Við verðum auðvitað að hefja uppeldið strax meðan börnin eru ung. Við verðum að ala þau upp í virðingu fyrir sjálfum sér og náunga sínum. Við verðum að kenna þeim að allir séu jafnréttháir, drengir, stúlkur, konur, karlar, samlandar þeirra og fólk af öðru þjóðerni, gagnkynhneigðir, samkynhneigðir og allt þar á milli. Við verðum að kenna þeim að allir eigi rétt á að vera þeir sjálfir og að borin sé virðing fyrir þeim eins og þeir eru. Við verðum að kenna þeim að spyrja sjálf sig að því hvað þeim finnst og hvað þau langar í stað þess að líta til staðalímynda eða almenningsálits. Við verðum að kenna þeim að þekkja staðalímyndirnar og vera gagnrýnin á þær. Við verðum að kenna þeim að hlusta og taka mark hvert á öðru.

Hvernig gerum við þetta? Stutta og einfalda svarið er auðvitað að þetta sé ekki hægt, foreldrar beri ábyrgð á uppeldi barna sinna og að það sé ekki hægt að miðstýra því hvernig þeir taki á málum í sínu uppeldi. Og það er auðvitað rétt.

Þess vegna verðum við að snúa okkur að skólakerfinu. Í lögum um jafnrétti kynja sem sett voru árið 1976, ég endurtek 1976, fyrir 39 árum, stendur:

Í skólum og öðrum mennta- og uppeldisstofnunum skal veita fræðslu um jafnrétti kvenna og karla.

Skemmst er frá því að segja að þetta hefur aldrei verið gert með markvissum hætti. Frá 1976 hefur þó ýmsum námsgreinum verið bætt inn í námskrá allra skólastiga, til dæmis greinar á borð við samfélagsfræði og lífsleikni. Í kennslustundum í þessum námsgreinum og öðrum er sáralitlum, ef nokkrum, tíma varið í að auka meðvitund barna og ungmenna um að við búum í samfélagi þar sem bil er milli kynja.

Í gildandi aðalnámskrám fyrir öll skólastig frá leikskóla upp í framhaldsskóla er jafnrétti skilgreint sem einn af sex grunnþáttum menntunar ásamt læsi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindum og loks sköpun. Samt á sér ekki stað nein formleg menntun á nokkru skólastigi um það að vera þegn í samfélagi þar sem jafnrétti kynja ríkir. Og samt er ekki boðið upp á neina formlega kennslu sem að þessu lýtur nema í valnámskeiðum í allnokkrum framhaldsskólum.

Þessu verður að breyta. Og það þarf auðvitað að byrja á kennaramenntuninni því þrátt fyrir að lagaákvæði um hlut skóla í jafnréttisfræðslu hafi gilt í harnær 40 ár þá fá kennaraefni lítið sem ekkert veganesti í þá vinnu í námi sínu.

Þau sem eru að mennta sig til kennslu á öllum skólastigum verða að fá hafa haldgóða menntun í þeirri grein sem nú er nefnd kynjafræði til þess að geta miðlað og þeir háskólar sem bjóða kennaramenntum þurfa einnig að bjóða starfandi kennurum upp á endurmenntun á þessu sviði til þess að unnt sé að kenna börnum og ungmennum að vera ábyrgir þegnar í samfélagi þar sem jöfnuður og virðing ríkir milli manna óháð kyni þeirra. Þar sem skoðanir og viðhorf karla og kvenna eru jafnrétthá og þar sem staðalímyndir kynja eru eru rannsakaðar með gagnrýnu hugarfari. Og þessi kennsla verður að hefjast strax við upphaf skólagöngunnar, í leikskólanum og halda áfram í grunnskóla og upp í framhaldsskóla.

Þetta er ekki síst mikilvægt vegna þess að svo virðist sem staðalímyndir kynja séu jafnvel enn sterkari og meira mótunarafl í lífi barna en verið hefur vegna þess hversu stóran sess sjónvarp, kvikmyndir og annar afþreyingariðnaður skipar í lífi barna.

Árangurinn af kynjafræðikennslu í framhaldsskólum blasir við. Þar hafa augu ungmenna opnast. Mörg þeirra sjá beinlínis heiminn í nýju ljósi. Þau stofna með sér femínistafélög og halda áfram að ræða málin sín á milli og vekja athygli á mismunandi birtingarmyndum kynjabilsins. Það skal enginn segja mér annað en að ungmenni sem hafa stundað þetta nám og tekið þátt í umræðu um stöðu kynjanna mæti fullorðinsárunum með haldgott veganesti til þess að lifa sínu fullorðinslífi öðruvísi en foreldrar þeirra gerðu.

Bara á síðustu vikum höfum við orðið vitni að vakningu sem á sér nokkrar birtingarmyndir; við höfum séð ungar konur fara úr að ofan til þess að leggja áherslu yfirráðarétt sinn yfir eigin líkama, við höfum séð ungar konur segja frá kynferðisofbeldi sem þær hafa orðið fyrir, ljóstra upp leyndarmálum sem þær hafa borið einar í sumum tilvikum í áraraðir og skila þar með skömminni til gerandans og við höfum séð ungar konur beita húmor og hæðni þegar þær segja frá misrétti sem þær verða fyrir í hvunndegi sínum á grunvelli kyns.

Allt þetta sýnir að mínu mati að unga fólkið með drifkraftinn getur breytt heiminum. Og það sem meira er að ég held að byltingin sé hafin.

En sá hluti ungmenna um tvítugt hverra augu hafa opnast í námskeiði um kynjafræði eða á fundi í femínistafélagi í skólanum, ber ekki einn uppi heila byltingu. Það þarf miklu meira til.

Og hvers vegna er þetta svona mikilvægt? Það er vegna þess að jafnréttissamfélag er betra samfélag en samfélag þar sem er kynjabil. Það er betra fyrir konur og fyrir karla og það er betra fyrir drengi og fyrir stúlkur.

Það er betra vegna þess að bæði stjórnsýslan og einkageirin eru betur rekin þar sem margbreytilegri sjónarmið koma að og það er betra vegna þess að báðir foreldrar ná að mynda sambærileg tengsl við börn sín og það er um fram allt betra þegar unnið er saman að sem flestum málum.

Við fögnum því í dag að 71 ár er liðið frá því að íslenska lýðveldið var stofnað. Lýðveldið hefur þó alls ekki fært völd jafnt í hendur okkar allra, og enn skiptir kyn máli, sem og kynþáttur, kynhneigð og heilsa, um hvaða völd og réttindi okkur hlotnast í lífinu.

Mín ósk er sú að á þessu ári þegar við fögnum því að 100 ár eru liðin frá því að konur fengu kosningarétt, verði stigin markviss og raunveruleg skref í þá átt skapa samfélag sem byggist á jafnrétti, samfélag þar sem kostir og möguleikar lýðræðisins eru mun betur nýttir en nú með því að fjölbreyttari hópur hafi mótandi áhrif á samfélagið okkar.