Laurie Bertram frá Kanada verður stödd hér á landi 11.-16. september til að flytja erindi um Vestur-Íslendinginn Elinu Salome Halldorsson (1887-1970). Erindið flytur Laurie, sem sjálf er af íslenskum ættum, í samkomusal Hallveigarstaða við Túngötu miðvikudaginn 12. september kl. 16:30. Veitingar eru í boði að loknum fundi.

Elin Salome sat á löggjafarþingi St. George umdæmis í Manitoba-fylki í Kanada á árunum 1936-1941. Elin Salome barðist m.a. fyrir aukinni þátttöku kvenna í stjórnmálum. Aðferðir og málfar Elinar Salome féllu þó oft í grýttan jarðveg meðal samferðamanna hennar, þ.á.m. Vestur-Íslendinganna og einangraðist hún nokkuð frá þeirra hópi, sérstaklega frá kvennasamtökum. Elin Salome gagnrýndi einnig kynsystur sínar og prjónaklúbba þeirra og fannst henni þær hafa misst þá framsýni og það hugrekki sem einkenndi formæður þeirra og lýst er í Íslendingasögunum. Í því sambandi sagði Elin m.a. „að það væri vissulega auðveldara að prjóna en að hugsa…“

Fundurinn er opinn öllum. Enginn aðgangseyrir.

Erindi Laurie Bertram – á ensku