Stjórn Kvenréttindafélags Íslands mótmælir fyrirhugaðri skerðingu á fæðingarorlofsgreiðslum og varar við neikvæðum áhrifum þess á stöðu foreldra á vinnumarkaði, þá sérstaklega kvenna. Fyrirsjáanlegt er að enn ein lækkunin á fæðingarorlofsgreiðslum kippi stoðunum undan fjárhagslegri afkomu nýbakaðra foreldra. Það mun leiða til þess að færri feður taki fæðingarorlof, auk þess sem fæðingartíðni kann að lækka. Rúmlega 90% íslenskra feðra hafa nýtt sér rétt til orlofstöku, sem þótt hefur til fyrirmyndar. Virk aðkoma feðra að umönnun ungbarna sinna er ein af frumforsendum þess að vænta megi varanlegs árangurs í baráttunni fyrir jafnri stöðu kvenna og karla. Kvenréttindafélag Íslands telur því að þessar aðgerðir séu verulegt skref afturábak í jafnréttisbaráttu kynjanna.

Hallveigarstöðum, 26. nóvember 2009

Aðrar fréttir