Franska sendiráðið, Kvenréttindafélag Íslands og Rauði krossinn bjóða ykkur velkominn á fund um konur mannúðarstörfum, í tilefni af Jafnréttisdögum, kl. 12:00 þriðjudaginn 15. febrúar í Háskólanum í Reykjavík.

Tatjana Latinovic formaður Kvenréttindafélagsins og Hólmfríður Garðarsdóttir hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir sem starfað hefur sem sendifulltrúi Rauða krossins segja frá reynslu sinni í mannúðarstörfum á alþjóðavettvangi.

Þessi erindi eru haldin í tilefni af ljósmyndasýningunni „Konur í mannúðarstörfum“ sem stendur alla vikuna í Sólinni við aðalinngang Háskólans í Reykjavík. Sýningin varpar ljósi á þátttöku kvenna í mannúðarstörfum. Konur eru virkir þátttakendur í mannúðaraðstoð, þær veita hana og eru skjólstæðingar hennar. Konur gegna fjölbreyttum hlutverkum, þær starfa á sviði flutninga, heilbrigðisþjónustu, miðlunar, þjálfunar, verkefnastjórnunar og jarðsprengjuhreinsunar, vinna við neyðaraðstoð, í skamm- eða langtímaverkefnum og stundum hætta þær lífi sínu til að hjálpa viðkvæmustu hópunum. Þessi ljósmyndasýning heiðrar konur í mannúðarstörfum.

***

Tatjana Latinovic, formaður Kvenréttindafélags Íslands, segir frá reynslu sinni af hjálparstarfi í stríðshrjáðum ríkjum Balkanskaga við upphaf tíunda áratugarins. Hún ræðir sérstaklega um mikilvægi jafnrar þátttöku kvenna í hjálparstarfi og hvernig kyn hefur áhrif á þarfir og aðstæður fólks á flótta og fólks á stríðshrjáðum svæðum.

Hólmfríður Garðarsdóttir er hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir og hefur starfað sem sendifulltrúi Rauða krossins, sem er hluti af stærstu mannúðar og hjálparsamtökum heims, víða um heim. Í erindinu veitir hún innsýn í mannúðarstarf með konum í mismunandi menningarheimum við ólíkar aðstæður.