Stjórn Kvenréttindafélags Íslands fagnar því að á Alþingi hafi verið samþykkt lagafrumvarp sem gerir kaup á vændi refsivert athæfi. Áralöng barátta kvennasamtaka á Íslandi hefur borið árangur og því ber að fagna. Vændi er ein birtingarmynd kynferðisofbeldis gagnvart konum og hefur sú skilgreining nú hlotið viðurkenningu í formi þessara nýju laga enda ætti ábyrgðin með réttu að vera hjá þeim sem ofbeldinu beita.
Kvenréttindafélag Íslands fagnar því einnig að Ísland skuli vera þriðja landið í heiminum til að setja slík lög og skipa sér þannig í framlínu ríkja sem taka kvenfrelsi og kvenréttindi alvarlega.
Hallveigarstöðum, 18. apríl 2009