Dagný Ósk Aradóttir Pind, stjórnarkona Kvenréttindafélagsins, hélt erindi á ráðstefnu sem skipulögð var af þýsku Friedrich-Ebert-Stiftung stofnuninni og kvennahreyfingu sænska sósíaldemókrataflokksins. Var ráðstefnan haldin í Stokkhólmi þriðjudaginn 10. október.

Í pallborði með Dagnýju sátu Rósa Guðrún Erlingsdóttir sérfræðingur hjá velferðarráðuneytinu og Harpa Ólafsdóttir sérfræðingur hjá Eflingu. Í erindi sínu lagði Dagný áherslu á mikilvægi kvennabaráttunnar og fjallaði aðeins um þá spurningar sem Kvenréttindafélagið hefur varpað fram um framkvæmd jafnlaunastaðalsins, svo sem um gegnsæi, launaleynd og mikilvægi þess að styrkja og stórefla umfang Jafnréttisstofu. Einnig ræddi Dagný um jafnlaunastaðalinn í víðara samhengi jafnréttis á vinnumarkaði, t.d. um kynskiptan vinnumarkað og óleiðréttan launamun.

Miklar umræður spunnust um jafnlaunastaðalinn í kjölfar erinda Dagnýjar, Rósu og Hörpu, og ljóst er að áhugi á jafnlaunastaðlinum erlendis er mikill. Kvenréttindafélagið hefur verið ötult að vekja athygli á jafnlaunastaðlinum síðustu fimm árin og heldur m.a. úti vefsíðu þar sem hægt er að nálgast upplýsingar um jafnlaunastaðalinn á ensku og norðurlandamálum, hér: https://kvenrettindafelag.is/resources/equal-pay-standard.

Friedrich-Ebert Stiftung stofnunin eru þýsk félagasamtök sem stofnuð voru 1925 og hefur það markmið að treysta lýðræðislegar undirstöður samfélagsins. Innan stofnunarinnar er sérstök deild sem hefur það að hlutverki að rannsaka norræna velferðarsamfélagið og rekur stofnunin skrifstofu í Stokkhólmi.